Vefkönnun 2011

Hvað er spunnið í opinbera vefi 2011?

Úttekt á opinberum vefjum ríkis og sveitarfélaga fór fram í fjórða skiptið 2011. Alls voru skoðaðir 267 vefir ríkisstofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga. Metið var samkvæmt gátlista hve vel vefirnir uppfylltu kröfur um aðgengi, nytsemi, innihald og þjónustu. Var úttekin með sama sniði og áður en efnisatriði hvers þáttar voru endurskoðuð í samræmi við breyttar kröfur og tækni. Opinberu vefirnir höfðu bætt sig í öllum þáttum frá síðustu úttekt nema þjónustu en skýrist það með breyttri matsaðferð. Sé litið til þjónustu sérstaklega bera skólastofnanir af í þeim þætti. Almennt er hægt að segja að opinberir vefir séu farnir að bæta sig að nýju og eru að hækka í samanburði við fyrri kannanir.

Niðurstöðurnar eru þessar í stuttu máli:

 • Opinberir vefir 2011 sýna að jafnaði framför frá úttektinni 2009. Allar gerðir stofnana hækka sig milli ára í öllum þáttum að þjónustu undanskilinni sem breytist ekki milli ára sé tekið tillit til breytinga á mælikvarða.
 • Ráðuneyti koma betur út en aðrar stofnanir í innihaldi og aðgengi. Almennt dregur þó saman með mismunandi stofnunum milli 2009 og 2011.
 • Aðgengi er sá þáttur sem að jafnaði kemur verst út hjá opinberum vefjum. Aukin áhersla er nauðsynleg á þennan þátt bæði vegna þarfa ýmissa hópa, svo sem blindra og fatlaðra, auk þess sem gott aðgengi að vef gerir hann nothæfari á fleiri gerðum vafra og tækja. Þá verður hann einnig aðgengilegri fyrir leitarvélar.
 • Stig þjónustu á opinberum vefjum er að mestu óbreytt frá 2007. Væntingar og þarfir fólks til þjónustu á vefnum hafa aukist á síðustu fimm árum og ný tækni hefur komið fram til að mæta þeim þörfum. Því er líklegt að þjónusta muni batna á næstu árum.

Heildarniðurstöður

Sé lítið til heildarniðurstöðu og þeirra aðila sem fengu hæstu einkunnir í heildarmati eru það: 1.Neytendastofa (95), 2.Tryggingastofnun Ríkisins (92), 3. Tollstjóri (91), 4. Háskólinn á Akureyri (88) og 5. Reykjavíkurborg (88).

Hæstu einkunnir í flokki ríkisvefja voru:

 1. Neytendastofa (95)
 2. Tryggingastofnun Ríkisins (92)
 3. Tollstjóri (91)
 4. Háskólinn á Akureyri (88)
 5. Fiskistofa (88)

Hæstu einkunnir í flokki sveitarfélaga voru:

 1. Reykjavíkurborg (88)
 2. Mosfellsbær (80)
 3. Seltjarnarnes (77)
 4. Garðabær (74)
 5. Akureyri (73)

Nánar:

Frá kynningu á niðurstöðu könnunar á opinberum vefjum 18. janúar 2012Mynd frá kynningu á niðurstöðum könnunarinnar á ráðstefnu 18. janúar 2012