Aðgengi fyrir alla

Rannsóknir sýna að milli 10 og 15% vefnotenda í vestrænum samfélögum eiga við einhvers konar fötlun að stríða og ætla má að verulegur hluti þeirra þarfnist sérstakrar aðstoðar eða hjálpartækja til að nýta sér vefinn svo vel sé. Einnig fjölgar eldri borgurum í Evrópu stöðugt. Árið 1990 var hlutfall þeirra sem eru eldri en 60 ára um 18% og er gert ráð fyrir að árið 2030 verði hlutfallið komið upp í 30% af íbúafjölda. því er mikilvægt að uppbygging vefja og framsetning þeirra sé skýr og einföld.

Gefa þarf gaum að þörfum þessara hópa og gera vefina þannig úr garði að fólk með mismunandi þarfir eigi auðvelt með að nýta sér efni þeirra. Raunin er sú að flest af því sem talið er að auðveldi aðgengi fatlaðra að netinu nýtist ekki síður öðrum notendum. Er þá til dæmis átt við óörugga tölvunotendur, útlendinga sem eru búsettir á Íslandi og hafa ekki fullt vald á íslensku, einstaklinga með þroskafrávik og fleiri.

Við gerð vefja þarf að gæta þess að unnt sé að skoða þá þótt mismunandi tækni sé beitt. Til dæmis á ekki að skipta máli hvort notandi beitir mús, lyklaborði, rödd, fingri eða öðru þegar flakkað er um vefinn. Ganga þarf úr skugga um að vefir séu skýrir og einfaldir svo auðvelt sé að átta sig á uppbyggingu þeirra. Það nýtist öllum notendum að samræmis sé gætt í allri framsetningu. Skýrt og einfalt málfar sem um leið hæfir viðkomandi vef er líklegra til að ná til notenda sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að skilja flókinn texta. Þeir sem nota táknmál eiga einnig auðveldara með og eru fljótari að túlka það sem textinn segir ef hann er hnitmiðaður og skýr.

Forrit og fleira sem hjálpar til við að bæta aðgengi: