Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fimm styrkir veittir úr Vinnuverndarsjóði

Styrkþegar ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins. - mynd

Fyrsta úthlutun úr nýstofnuðum Vinnuverndarsjóði hefur farið fram og hlutu fjórar rannsóknir og eitt verkefni styrki. Sjóðurinn var settur á fót á síðastliðnu ári og er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Vinnueftirlitsins. Markmið hans er að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að bættri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki og hafði sjóðurinn tíu milljónir króna til úthlutunar. 

Eftirtalin hlutu styrki:

Frá vinnuklefa til sófans: Áhrif vinnuaðstæðna á líðan starfsfólks

  • Umsækjendur: Dr. Thamar Heijstra og dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessorar í félagsfræði við Háskóla Íslands. 
  • Styrkupphæð: 3.000.000 kr
Spurningalisti verður lagður fyrir starfsfólk sem vinnur í fjarvinnu og niðurstöður hans bornar saman við samanburðarhóp sem ekki vinnur í fjarvinnu.

Áhrif sjálfvirknivæðingar og fjarvinnu á starfstengda kulnun, starfstengd viðhorf, upplifun og hegðun í formi áforma um starfslok, auk tengsla við fjarvistir og starfsmannaveltu

  • Umsækjendur: Arney Einarsdóttir, prófessor við Háskólann á Bifröst og doktor í mannauðsstjórnun, og Katrín Ólafsdóttir, dósent í Háskólanum í Reykjavík og doktor í vinnumarkaðshagfræði. 
  • Styrkupphæð: 2.990.000 kr.
Markmiðið er að rannsaka tengsl bæði sjálfvirknivæðingar og fjarvinnu við kulnun og önnur lykilviðhorf og upplifun starfsfólks á vinnustöðum, eins og starfsánægju, upplifun á sanngirni, trausti og jafnrétti.

Áhrif starfsumhverfis hjúkrunarfræðinga á kulnun í starfi

  • Umsækjandi og verkefnisstjóri: Ásdís Aðalbjörg Arnalds, doktor í félagsráðgjöf og forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. 
  • Styrkupphæð: 2.000.000 kr.

Eigindleg rannsókn á orsökum kulnunar meðal hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Markmiðið er að öðlast skilning á því hvernig kerfisbundnir þættir í starfi hjúkrunarfræðinga geta gert þá útsetta fyrir kulnun. Rannsóknarniðurstöður verða nýttar til að móta tillögur að úrbótum á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga í samráði við starfsfólk Landspítala.

Heilsueflandi vinnuumhverfi og góð vinnustaðamenning í skólum

  • Umsækjendur: Dr. Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt við Deild kennslu- og menntunarfræða í Háskóla Íslands. 
  • Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Rannsókn sem miðar að því að auka þekkingu á heilsueflandi vinnuumhverfi og góðri vinnustaðamenningu í grunn- og leikskólum, sem getur haft góð áhrif á vellíðan kennara og dregið úr fjarveru þeirra og brottfalli úr starfi. Rannsóknin byggir á viðtölum við stjórnendur og kennara í skóla þar sem vel gengur.

Vinnuvernd og vinnuréttur – fræðsla fyrir nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn

  • Umsækjandi: Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins. Verkefnisstjóri er Þröstur Þór Ólafsson, öryggisstjóri Tækniskólans. 
  • Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Gerð fræðsluefnis um vinnuverndarmál á íslenskum vinnumarkaði fyrir nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.

 

Til stendur að auglýsa aftur eftir umsóknum um styrki í sjóðinn síðar á þessu ári og verður sama styrkupphæð til úthlutunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum