Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Vel heppnuð ráðstefna um stöðu bókarinnar á Íslandi

Á dögunum stóð menningar- og viðskiptaráðherra fyrir ráðstefnu um stöðu bókarinnar á Íslandi. Ráðstefnan var haldin í Veröld – húsi Vigdísar og var mjög vel sótt. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Fjárfesting í íslenskum bókum – skiptir hún máli?

Rannís hefur birt tölfræðileg gögn vegna stuðnings við útgáfu bóka á árinu 2023. Þar kemur fram að hið opinbera hafði á síðasta ári endurgreitt útgefendum rúmar 440 milljónir. Frá því endurgreiðslur hófust árið 2019 hafa þær aukist nokkuð. Nánari upplýsingar um endurgreiðslur er að finna á vef Rannís.

Bókmenntastefna á Alþingi í vor

Ráðstefnan um stöðu bókarinnar er haldin í kjölfar úttektar sem Deloitte vann fyrir ráðuneytið og skilaði í lok október. Björgvin Ingi Ólafsson og Gísli Guðjónsson unnu úttektina af hálfu Deloitte og kynnti Gísli helstu niðurstöður á ráðstefnunni. Fram kom að velta á íslenskum bókamarkaði hafi dregist verulega saman samkvæmt gögnum Hagstofunnar allt frá 2008–2018, eða um 43% á föstu verðlagi. Endurgreiðslur stjórnvalda vegna kostnaðar við útgáfu bóka á íslensku voru meðal annars hugsaðar til að bregðast við þessu ástandi. Enn fremur voru rakin áhrif af tilkomu nýrra miðla á markaðinn, einkum hljóðbókarinnar, og hvernig bókaneysla breyttist í kórónuveirufaraldrinum og í kjölfar hans.

Helstu niðurstöður Deloitte eru að stuðningurinn hafi í fyrsta lagi stuðlað að lægra verði bóka til neytenda en ella. Verðlag á bókum hefur á tímabilinu sem til rannsóknar er hækkað minna en almennt verðlag sem skilgreint er í vísitölu neysluverðs. Þá eru sterkar vísbendingar um að endurgreiðslurnar hafi haft áhrif á fjölda útgefinna titla og stuðlað að fjölbreyttara framboði bóka.

Í úttektinni kom í ljós að gallar eru á söfnun tölfræðigagna vegna bókaútgáfu á Íslandi og þarf að gera gangskör í að koma því í lag. Við því verður brugðist með sérstakri aðgerð í bókmenntastefnu sem menningar- og viðskiptaráðherra leggur fram á Alþingi nú á vorþingi.

Árangur endurgreiðslna

Samdráttur í veltu bókaútgáfu, sem hafði verið á niðurleið í heilan áratug, frá 2008–2018, hefur snúist við eftir að lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku tóku gildi. Fyrir því eru að öllum líkindum samþættar ástæður þar sem tveir atburðir á tímabilinu hafa einnig haft einhver áhrif, annars vegar tilkoma Storytel á íslenskan bókamarkað og hins vegar áhrif kórónuveirufaraldursins. Veltuaukning bókaútgáfu á Íslandi er 26% miðað við árin 2019–2022. Aukningin er þó ekki bara vegna Storytel því ef það er tekið út fyrir sviga er aukningin samt sem áður 15%.

Að lokinni kynningu Deloitte fjallaði Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda, um þau áhrif sem endurgreiðslurnar hafa haft á íslenskan bókamarkað. Hún rakti meðal annars þau áhrif sem þær hafa haft á verðþróun bóka eftir mismunandi bókaflokkum. Til dæmis er raunlækkun á íslenskum skáldsögum upp á 13% á árabilinu 2016–2023. Bryndís benti á að sölutölur einstakra titla væri áhyggjuefni þar sem þeim hefði fækkað jafnt og þétt frá 2016–2022. Tölur frá 2023 sýna þó að bóksala er heldur á uppleið. Þá tiltók Bryndís ýmis ummæli og athugasemdir úr stétt útgefenda um endurgreiðslukerfið. Sumar athugasemdir vörðuðu kosti og galla kerfisins og hvernig mætti gera endurbætur á því. Jákvæð ummæli á borð við „auðveldara að gefa nýjum höfundum tækifæri“ og „gerir okkur kleift að gefa út vandaðri og veglegri bækur“ lýsa hug útgefenda til endurgreiðslnanna en þar er þó líka að finna ummæli á borð við „það stendur ekki allt undir sér þrátt fyrir endurgreiðsluna“ og „dugar ekki til“. Ákall kom bæði fram í máli Bryndísar og eins fleiri sem tóku til máls á ráðstefnunni um að nauðsynlegt væri að sinna þýðingum úr erlendum málum betur, það væri sérstakt vandamál sem nauðsynlegt væri fyrir hið opinbera að bregðast við.

Í auga stormsins

Halldór Guðmundsson, rithöfundur og stjórnarformaður Forlagsins, fjallaði í sínu máli vítt og breytt um ástand og framtíðarhorfur í bókaútgáfu, bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Hann nefndi að sú áskorun sem bókamarkaðurinn stæði frammi fyrir núna, ekki síst með tilkomu hljóðbókarinnar, væri ekki ósvipuð þeirri sem tónlistarmarkaðurinn stóð frammi fyrir um síðustu aldamót þegar geisladiskaútgáfa minnkaði verulega í kjölfar streymis tónlistar á vefnum. Halldór nefndi einnig þá staðreynd að rúmlega þriðja hver bók sem lesin væri á Íslandi bærist lesendum gegnum heyrnartól. Viðskiptamódel kringum hljóðbókina væri hins vegar enn mjög óhagfellt rithöfundum, bókaútgefendum, forlögum og öðrum rétthöfum og hefði gert mikið strandhögg í tekjumöguleikum þessara aðila. Það yrði hins vegar ekki litið fram hjá því að lesendur fögnuðu þessari nýbreytni sem hljóðbókin er og hvernig henni er miðlað, það sýndi fjöldi áskrifenda að streymisveitum bóka. Á Íslandi væru þeir á sjötta tug þúsunda. Lestur hafði heldur ekki minnkað á Íslandi í takti við samdrátt í hefðbundinni bókaútgáfu.

Niðurstaða Halldórs var að við værum í auga stormsins, bæði vegna tæknibreytinga og einnig tilkomu gervigreindar, þegar kemur að stöðu bókarinnar í heiminum. Íslenskir útgefendur þurfi að nota tímann meðan þeir fá endurgreiðslur til að móta framtíðaráform sín. Fram undan séu gríðarlegar breytingar á bókamarkaði og enginn viti í raun hvert það leiðir. Áskoranirnar séu margar og miklar, ekki síst hér á Íslandi þar sem við höfum oftar en ekki fundið tilveru okkar samastað í bókinni.

Í lok ráðstefnunnar stýrði Gerður Kristný pallborði þar sem haldið var áfram að ræða stöðu bókarinnar. Þátttakendur í pallborði voru Halldór Guðmundsson, Katrín Lilja Jónsdóttir, formaður IBBY á Íslandi, Natasha S. rithöfundur, Pétur Már Ólafsson framkvæmdastjóri Bjarts – Veraldar og Sigríður Hagalín Björnsdóttir rithöfundur. Staða bókarinnar og framtíðarhorfur voru ræddar út frá mismunandi sjónarhorni höfunda, lesenda og útgefenda.

Ráðuneytið vekur athygli á því að ný bókmenntastefna er í mótun í ráðuneytinu og búist er við því að drög að henni verði birt í Samráðsgátt síðar í mánuðinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum