Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland tók þátt í Raisina Dialogue í fyrsta sinn

Representatives from the NB8 countries along with Subrahmanyam Jaishankar, Foreign Minister of India. - mynd

Áskoranir alþjóðasamfélagsins vegna loftslagsbreytinga, stríðsátaka og aukins þrýstings á alþjóðakerfið voru í brennidepli á árlegri ráðstefnu á vegum indverskra stjórnvalda sem fram fór í Nýju Delí í vikunni. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, tók þátt í ráðstefnunni fyrir hönd Íslands ásamt utanríkisráðherrum NB8 ríkjanna. 

Ráðuneytisstjóri tók meðal annars þátt í pallborðsumræðu ásamt utanríkisráðherrum Danmerkur og Litáen sem og forseta World Economic Forum um áhrif síbreytilegs alþjóðapólitísks landslags, loftslagsbreytinga og tækniþróunar á aðfangakeðjur. Þá áttu fulltrúar NB8 ríkjanna sameiginlegan fund með Subrahmanyam Jaishankar, utanríkisráðherra Indlands, þar sem mikilvægi áframhaldandi stuðnings við Úkraínu og virðing fyrir alþjóðakerfinu voru meðal umræðuefna. Markmið sameiginlegrar þátttöku NB8 ríkjanna var að senda skýr skilaboð um mikilvægi Indlands sem samstarfsaðila, en Indland er stærsta lýðræðisríki heims. 

Á hliðarlínum ráðstefnunnar átti ráðuneytisstjóri jafnframt fundi með indversk-íslenska viðskiptaráðinu, Invest India og skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneyti Indlands, þar sem áherslumál ríkjanna fyrir komandi ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem fram fer í Abu Dhabi í næstu viku voru til umræðu. Þá staðfesti ráðuneytisstjóri aðild Íslands að alþjóðlega lífeldsneytisbandalaginu (e. Global Biofuels Alliance) sem Indland kom á fót í formennskutíð sinni í G20-hópnum. Ráðuneytisstjóri flutti auk þess ávarp um jafnréttismál á fjölmennri ráðstefnu og tók þátt í pallborðsumræðu sem sendiráð Íslands í Nýju Delí og svæðisskrifstofa UNESCO á Indlandi stóðu fyrir. 

Raisina Dialogue er stærsta ráðstefna Indlands á sviði alþjóðastjórnmála og var hún haldin í níunda skipti á þessu ári. Árlega sækir ráðstefnuna mikill fjöldi ráðamanna og voru þátttakendur frá 115 löndum að þessu sinni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum