Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra skipar starfshóp til að endurskoða rammaáætlun

Hilmar Gunnlaugsson. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem fær það hlutverk að endurskoða verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).

Starfshópnum er falið að skoða og gera tillögur til ráðherra í formi frumvarps og greinargerðar um endurskoðun laga 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Hópurinn á við vinnu sína að leggja sérstaka áherslu á að auka skilvirkni í kerfinu í heild og einföldun regluverks.

Lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem samþykkt voru 2011, kveða á um að vinna skuli heildaráætlun til langs tíma um vernd og nýtingu landsvæða til orkuvinnslu. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarinnar er kveðið á um endurskoðun þessara laga, til að tryggja megi ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi, en á undanförnum árum hefur komið fram talsverð gagnrýni á ferli rammaáætlunar, sérstaklega tímalengd ferlisins. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Starfshópurinn sem nú hefur verið skipaður mun m.a. horfa til gagnrýninnar sem ferli rammans hefur sætt við vinnu sína. Mikilvægt er að endurskoðað ferli stuðli að markmiðum Íslands um orkuöryggi, orkusjálfstæði og sjálfbærni  verði náð, jafnhliða því að með því skapist traust og tortryggni verði útrýmt.  Endurskoðað ferli þarf að tryggja að sátt geti náðst um einstaka virkjunarkosti, sem og þau svæði sem njóta eiga verndar.“

Stýrihópinn skipa þau:

Hilmar Gunnlaugsson. hrl., formaður,

Björt Ólafsdóttir, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála,

Kolbeinn Óttarsson Proppé. fyrrv. alþingismaður.

Með hópnum starfa Sigríður Svana Helgadóttir og Hafsteinn S. Hafsteinsson, lögfræðingar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Starfshópnum er falið að hafa ítarlegt samráð við stofnanir, samtök sveitarfélaga, fyrirtæki, félagasamtök og aðra hagsmunaaðila sem hafa með málefni orkunýtingar og náttúruverndar að gera.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að leggja fram frumvarp til laga á grundvelli tillagna hópsins eigi síðar en á næsta löggjafarþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum