Hoppa yfir valmynd
11. mars 2024 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um mat á kolefnisspori matvælaframleiðslu á Íslandi

Út er komin skýrsla sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið þar sem lagðar eru fram tillögur um aðferðir stjórnvalda við mat á kolefnisspori vegna matvælaframleiðslu á Íslandi.

Skýrslan er unnin af Birnu Sigrúnu Hallsdóttur umhverfisverkfræðingi. Þar eru lagðar til leiðir til að reikna kolefnislosun framleiddra matvælaeininga auk heildarlosunar einstakra matvælagreina. Einnig er rýnt hvernig gera megi grein fyrir helstu losunarþáttum og þeim þáttum sem geta haft áhrif á kolefnisspor tiltekinna matvæla.
Í skýrslunni kemur fram:

  • Hvaða gögn eru nauðsynleg til að meta kolefnisspor matvæla
  • Helstu áhrifaþættir losunar gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu
  • Útreikningar á losun helstu matvælaframleiðslugreina
  • Mögulegir fyrirvarar vegna tengsla landnotkunar og landbúnaðar
  • Helstu óvissuþættir sem hafa áhrif á niðurstöðu og hvernig megi draga úr óvissu við mat á kolefnisspori matvælaframleiðslu

Í skýrslunni er leitast við að setja fram samanburðarhæfar tölur fyrir helstu matvælaframleiðslugreinar á Íslandi. Fyrirvarar eru settir við niðurstöður þar sem vandkvæðum er bundið að afla vissra gagna og því ekki unnt að fullreikna kolefnissporið sem skyldi. Veruleg óvissa ríkir t.a.m. varðandi losun frá landi og er því horft fram hjá áhrifum landnotkunar og breytinga á henni.

Engu að síður er þörf á ítarlegri gagnaöflun og greiningum varðandi uppskiptingu losunar á framleiðsluþætti og framleiðsluvörur. Því má líta á útreikninga í skýrslunni sem fyrsta skref við mat á kolefnisspori matvæla á Íslandi. Í skýrslunni er jafnframt lagt til að fundnar verði aðferðir við útreikninga landnotkunar í kolefnisspori matvælaframleiðslu sem verði í samræmi við fyrirliggjandi tillögur í endurskoðaðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Matvælaráðuneytið leggur til að kolefnisspor lífrænnar landbúnaðarframleiðslu verði skoðað, til samanburðar við hefðbundnari framleiðsluhætti.

„Gera má ráð fyrir að kolefnisspor matvæla fari lækkandi á næstu árum vegna aðgerða í loftslagsmálum,” sagði Katrín Jakobsdóttir sem gegnir embætti matvælaráðherra nú um stundir. „Almenningur er meðvitaður um mikilvægi bættrar nýtingar í matvælaframleiðslu og orkuskipti munu hafa víðtæk áhrif til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni. Kolefnisspor matvælaframleiðslu er þó ennþá umtalsvert og þessi skýrsla sýnir fram á mikilvægi þess að stjórnvöld noti viðurkennda aðferðafræði við mat á kolefnissporinu. Það er í samræmi við þær áherslur sem koma fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar og mun styrkja sjálfbærni innlendrar matvælaframleiðslu til framtíðar“.

Skýrsluna má nálgast hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum