Hoppa yfir valmynd
13. mars 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heildarendurskoðun á útgáfu námsgagna til umsagnar

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, stóð fyrir málþingi um framtíðarfyrirkomulag útgáfu námsgagna í febrúar - mynd

Nýtt frumvarp til laga um námsgögn hefur verið lagt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Stefnt er að því að stórefla umgjörð og stuðning við útgáfu námsgagna og gera námsgögn gjaldfrjáls fyrir nemendur leik-, grunn- og framhaldsskóla í áföngum. Um er að ræða niðurstöðu heildarendurskoðunar fjölbreytts hóps hagsmunaaðila úr fræða- og skólasamfélaginu.

Lengi hefur verið kallað eftir bættu fyrirkomulagi við útgáfu námsgagna fyrir allt menntakerfið. Ábendingar og athugasemdir við núverandi fyrirkomulag hafa meðal annars komið fram við greiningu á stöðu námsgagna og í viðhorfskönnunum meðal kennara og skólastjórnenda. Frumvarpið byggir meðal annars á vinnu fjölmenns hóps helstu hagsmunaaðila sem mennta- og barnamálaráðherra skipaði um endurskoðun laga um námsgögn.

Markmið frumvarpsins er að tryggja gæði, framboð og fjölbreytileika námsgagna til að styðja við nám og kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Með frumvarpinu er lagt til að börn að 18 ára aldri muni, að loknu innleiðingatímabili, eiga rétt á gjaldfrjálsum námsgögnum í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Með þessu er verið að taka mikilvægt skref til að tryggja enn frekar í sessi þann skýlausa rétt barna til náms óháð efnahags- og félagslegarar stöðu.

Í frumvarpinu er lagt til að einfalda námsgagnasjóð og útvíkka hlutverk þróunarsjóðs námsgagna á þann hátt að heimilt verði að sækja um styrk til þýðinga á námsefni og að höfundar námsefnis fyrir tónlistarskóla geti sótt um í sjóðinn. Útfært verði leiðbeiningar- og fræðsluhlutverk þróunarsjóðs námsgagna með því að umsækjendur geti sótt sér faglegan stuðning við útgáfu sem hlýtur styrk. Þá er lagt til að unnin verði útgáfuáætlun námsgagna sem kveður á um áherslur í námsefnisgerð til fimm ára í senn og að ráðherra verði heimilt að setja gæðaviðmið um gerð og útgáfu námsgagna.

Umsagnarfrestur í Samráðsgátt er til 25. mars nk. Ráðgert er að lögin taki gildi við upphaf næsta skólaárs eða 15. ágúst 2024, í stað núverandi laga um námsgögn, en að ákvæði frumvarpsins um gjaldfrjáls námsgögn öðlist gildi 1. janúar 2029 að loknu innleiðingartímabili.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum