Hoppa yfir valmynd
13. mars 2024 Utanríkisráðuneytið

Skóli og athvarf fyrir þolendur kynbundins ofbeldis afhent í Úganda

Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Jimmy Kanaabi, formaður héraðsstjórnarinnar í Buikwe. - mynd

Sendiráð Íslands í Kampala í Úganda afhenti í nýliðinni viku héraðsyfirvöldum í Buikwe-héraði annars vegar nýtt athvarf fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og hins vegar fullbúinn grunnskóla. Skólinn er sá fimmtugasti sem byggður er fyrir íslenskt þróunarfé frá því byggðaþróunarverkefni Íslands hófst í héraðinu árið 2015. Nemendafjöldinn í þessum skólum er um helmingur íslenskra barna á grunn- og framhaldsskólaaldri. 

„Ísland hefur átt í þróunarsamvinnu við Úganda í bráðum 25 ár og er árangur samstarfsins fyrir löngu orðinn áþreifanlegur, sér í lagi á sviði menntunar. Nýtt athvarf fyrir þolendur kynbundins ofbeldis er sömuleiðis mikilvægt framlag í þágu jafnréttis og mun án efa styrkja samfélagið í Buikwe-héraði enn frekar,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.

Athvarfið fyrir fórnarlömb kynbundins ofbeldis er það fyrsta sem reist er í Buikwe-héraði, öðru af samstarfshéruðum Íslands í Úganda. Fyrsta skóflustungan var tekin í lok október og nú liðlega fjórum mánuðum síðar afhenti Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, bygginguna héraðsyfirvöldum við formlega athöfn. Byggingin er liður í jafnréttisverkefni íslenskra stjórnvalda í samvinnu við héraðsyfirvöld sem miðar meðal annars að því að takast á við kynbundið og kynferðislegt ofbeldi í strandbyggðum. Rétt eins og víða annars staðar í landinu er kynbundið misrétti viðvarandi og útbreitt í Buikwe og kynbundið ofbeldi og kynferðisofbeldi sömuleiðis.

Fimmtugasti skólinn afhentur

Sama dag afhenti svo Hildigunnur yfirvöldum í Buikwe nýjan grunnskóla í byggðarlaginu Wakisi nærri bökkum Nílar. Afhendingin markar tímamót því skólinn er sá fimmtugasti sem reistur er fyrir íslenskt þróunarfé í Buikwe frá því að byggðaþróunarsamstarf Íslands og héraðsyfirvalda hófst árið 2015. Um þrjátíu þúsund nemendur sækja þessa fimmtíu skóla en fjórir þeirra eru á framhaldsskólastigi. Til samanburðar bjuggu í fyrra rúmlega sextíu þúsund börn og unglingar á aldrinum 6-18 ára á Íslandi. Á þessum níu árum hafa því verið byggðir fyrir íslenskt þróunarfé skólar í Buikwe fyrir nemendafjölda sem samsvarar helmingi íslenskra barna og unglinga á skólaaldri á hverjum tíma. 

„Það er ánægjulegt að afhenda byggingar sem endurspegla áherslur Íslands í þróunarsamvinnu: jafnrétti, grunnmenntun og vatns- og hreinlætismál. Við erum sannfærð um að skólinn og athvarfið hafi jákvæð áhrif á samfélagið í Buikwe-héraði,“ segir Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala.

Auk fullbúinna kennslustofa fylgja Wakisi-skólanum nýtt eldhús, sem búið er orkusparandi eldunaraðstöðu, og endurbætt salernisaðstaða með sturtum og brennsluofnum fyrir tíðavörur. Með slíkri aðstöðu er spornað við brottfalli unglingsstúlkna úr skólum en blæðingar þykja ennþá feimnismál og skammarefni. Þá eru bæði skólastofur og salerni hönnuð með þarfir fatlaðs fólks í huga. Loks fylgja skólanum íbúðir fyrir skólastjóra og yfirkennara en fjarvistir starfsfólks sem þarf um langan veg að fara í vinnu eru hamlandi þáttur í skólastarfi í landinu. 750 börn stunda nám við skólann.

Buikwe er annað tveggja samstarfshéraða Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu í Úganda, hitt er Namayingo. Verkefni Íslands í héruðunum tveimur eru einkum á sviði menntamála og vatns- og hreinlætismála. Kynjajafnrétti, mannréttindi og umhverfismál eru þverlæg áhersluatriði í þróunarsamvinnu í Úganda. Framkvæmd verkefnanna er undir forystu héraðsyfirvalda með stuðningi og eftirliti af hálfu Íslands. Þau eru skipulögð í samræmi við þróunaráætlun Úganda, þróunarsamvinnustefnu Íslands og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum