Vefhandbókin - Almennar upplýsingar

Vefhandbókin var fyrst gefin út árið 2008 og hefur síðan þá verið uppfærð tvívegis, árin 2012 og 2014. Í endurskoðun árið 2012 var meðal annars bætt við umfjöllun um lýðræðislega virkni á vefnum og kafli um aðgengismál var uppfærður. Í endurskoðun 2014 var sérstaklega litið til 1. og 4. kafla sem hafa tekið nokkrum breytingum. Meiri áhersla er á undirbúning vefverkefna, skrif fyrir vefinn, starf vefstjórans, notendaupplifun og efni í heild endurskoðað með tilliti til örrar þróunar í notkun snjalltækja (snjallsíma og spjaldtölva). Þá var bætt við kafla um öryggismál þar sem meðal annars er að finna gátlista og skjal fyrir sjálfsmat.

Hér að ofan eru þrjár inngönguleiðir inn í handbókina. Í fyrsta lagi er hefðbundið efnisyfirlit sem ætlað er að beina notendum í gegnum þróunarferli verkefna. Í öðru lagi er handbókin aðgengileg fyrir sérstaka markhópa. Þriðja leiðin, „Gæðamál“, er svo fyrir þá sem stefna að úrbótavinnu í tengslum við könnunina „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“.

Allar ábendingar um verkefnið eru vel þegnar. Þær má senda á netfangið postur@irr.is.

Þetta atriði er kannað sérstaklega í gæðakönnunAthygli er vakin á því að nokkrir kaflar eru sérmerktir með merkinu sem sjá má hér til hliðar. Merkið þýðir að það atriði sem fjallað er um í kjölfarið er kannað í gæðakönnuninni „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ og því er sérlega mikilvægt að fylgja leiðbeiningum.

Markmið vefhandbókarinnar er að tryggja samræmi í vefhönnun opinberra aðila, bæta þjónustu við almenning og almenn gæði í tengslum við aðgengi fatlaðs fólks og eldri borgara.